Inga Kristjáns
Þrjú mikilvæg efni fyrir topp andlega heilsu

Við erum nú stödd í svartasta skammdeginu og rosalega mikilvægt að huga að heilsunni, ekki bara þeirri líkamlegu heldur ekki síður hinni andlegu.
Það eru ákveðin efni, vítamín og steinefni, sem eru sjúklega mikilvæg fyrir geðslagið og ef uppá vantar í kroppinn þá getur það valdið veseni.
Mig langar að deila hér með ykkur litlum lista yfir bætiefni sem get hjálpað gegn streitu, þyngslum og kvíða.
Þá eru lykilorðin „geta hjálpað“, því stundum þarf auðvitað mun meira til að vinna gegn slíku, læknishjálp og/eða sálfræðimeðferð.
Þetta er líka engan veginn tæmandi listi eða upptalning, svo ótal margt sem getur hjálpað, en það nennir nú enginn að lesa rosa langan pistil.
Það eru fjölda margar rannsóknir sem sýna fram á að þessu eftirtöldu efni, geta haft jákvæð áhrif í svona aðstæðum.
Hér koma mínar hugmyndir:
B vítamín
B vítamínin eru auðvitað ekki bara eitt efni, heldur mörg og best er að taka inn blöndu B vítamína.
Þau fíla félagskap hvers annars og nýtast best í hóp.
Skortur á ákveðnum B vítamínum er nokkuð algengur og getur dregið úr mannskapnum allan mátt.
B 12 skortur er gott dæmi um það. Hann lýsir sér í mikilli þreytu, mæði, minnistruflunum, svima og þunglyndi svo eitthvað sé nefnt.
B 12 upptaka er háð ákveðnum þætti í meltingarfærum (intrinsic factor) og það er mjög algengt að upptakan sé slæm.
Það getur hreinlega verið arfgengt.
Einnig hafa magalyf (svokölluð PPI lyf) áhrif og geta dregið stórkostlega úr upptöku.
Það er margt sem getur valdið því að okkur vantar hin ýmsu B vítamín.
Léleg upptaka eins og ég nefndi hér að ofan, sum lyf valda skorti, einhæft mataræði, áfengisdrykkja og ýmislegt fleira.
B vítamínin eru vatnsleysanleg, sem þýðir að það er engin hætta á að þau safnist upp í líkamanum og valdi eitrun eða slíku.
Þannig að ykkur er óhætt að taka þau inn að staðaldri í stórum nokkuð skömmtum.
Það að þau eru vatnsleysanleg þýðir líka að þá getur líkaminn ekki geymt mikinn forða og því nauðsyn að fylla á reglulega.
B vítamínin eru fjölmörg, en best er að taka þau inn öll saman, eins og áður sagði.
Hins vegar má svo bæta við skammti einhverjum ákveðnum B vítamínum, ef ástæða er til.
Til dæmis B12 vítamíni.
Þið getir fengið mælt í blóðprufu hjá lækni hve vel þið standið í B12 og um að gera að fá það mælt ef þið kannist við einhver einkenna hér að ofan eða grunar að þið séuð lág í B12.
D vítamín
Við vitum að við þurfum að taka það inn allt árið en sérstaklega mikilvægt yfir vetrartímann, þar sem við fáum ekki nægilegt magn úr sólinni stærsta tíma ársins.
Jafnvel er talað um að við náum ekki að vinna D vítamín úr sólinni nema í uþb 6 vikur á ári.
Það er nú bara fj.... kornið ekki neitt.
Það er líka mjög erfitt að fá nægilegt D vítamín úr fæði, nánast ómögulegt nema borða þorskalifur reglulega, persónulega nenni ég því ekki!
En hvað kemur D vítamín þyngslum, kvíða og stressi við?
Jú heil mikið bara.
D vítamín er magnað og virkar eiginlega líkt og hormón í líkamanum.
Komið hefur í ljós, þegar fólk með þunglyndi og kvíða er rannsakað, að það hefur oft lág gyldi af D vítamíni og rannsóknir hafa sýnt að það að kippa því í lag hefur stórkostleg áhrif.
Voila!
Það er þá bara „winwin“ að taka inn D vítamín núna, því það hefur ekki eingöngu góð áhrif á andlega líðan heldur er það algjör nauðsyn öflugu ónæmiskerfi í baráttunni við veirur og annan skít.
Ég þarf ekki að segja meira held ég.
Allir að ná sér í D vítamín.
Magnesíum
Auðvitað magnesíum!
Flestir hafa líklega heyrt um mikilvægi þess fyrir líkama og sál, en skoðum það aðeins betur.
Magnesíum er þátttakandi í yfir 300 efnahvörfum í líkamanum.
Það þýðir að ef að líkaminn hefur ekki nóg magnesíum þá eru öll þessi efnahvörf þyngri í vöfum og jafnvel ganga ekki upp.
Það er talið að allt að 75% fólks nái ekki að fá nóg magnesíum úr fæðu...það er dáááálítið stór hópur.
Magnesíumskortur getur lýst sér á ýmsa lund og með furðulegustu einkennum.
Hér eru þau líkamlegu:
Sinadrættir, fótapirringur, krampar, vöðvakippir og þreyta, óreglulegur hjartsláttur, hár blóðþrýstingur og jafnvel flog.
Hér eru svo þau andlegu:
Þunglyndi, kvíði og aukin streitueinkenni og minna þol gegn álagi...
Þar hafið þið það!
Við nennum nú ekkert að láta einhvern magnesíumskort skemma fyrir okkur heilsuna, og það er líka svo auðvelt að kippa þessu í liðinn með því einfaldlega að taka inn magnesíum daglega.
Ef þið hafið ekki tekið inn magnesíum áður, þá er bara eitt að varast.
Ekki byrja á of stórum skammti....það er ávísun á vesen....
Margar tegundir magnesíums eru nefnilega mjög losandi í ofurskömmtum.
Já ég er að reyna að segja á penan hátt (veit ekki hversvegna ég er að reyna það samt) að þið fáið niðurgang af of miklu.
Best er að auka skammtinn hægt og rólega og svo bara halda sig í viðhaldsskammti.
Það er mjög einstaklingsbundið hvað hver og einn þarf mikið, það fer eftir aldri, ástandi, mataræði, hvort viðkomandi sé á lyfjum sem hafa áhrif á jafnvægið og einnig hvort mikil áfengisneysla sé málið.
Eins og ég sagði í upphafi, þá eru þetta einungis þrjár hugmyndir margt annað sem skiptir miklu máli.
Höldum í heilsuna og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að láta okkur líða vel í vetur!

Sumarmánuðir eru rólegir hjá næringarþerapistanum og þá er annað hvort að láta sér leiðast eða finna uppá einhverju nýju. Þess vegna datt mér í hug að gera svolítið skemmtilegt og vonandi láta gott af mér leiða í leiðinni. Ég elska svona ”winwin” dæmi, þegar bæði ég og aðrir hafa gaman og gott af því sem ég geri. Jáskorun í júli (mér finnst jáskorun mun fallegra orð en áskorun...) er eitthvað sem fæddist í kollinum á mér klukkan fimm að morgni, svona eins og gengur og hugmyndin lét mig ekki í friði. Þannig ég bara ákvað að kíla á verkefnið. Þetta snýst um að ég kem fram með fjórar jáskoranir, eina á viku í allan júlí. Mig langar svo að sýna fram á að sumarfrí og ferðalög þurfa ekki að setja heilsu og líðan á hliðina, heldur eru ótrúlega einföld ráð sem virka og hjálpa til við að halda gleðinni og heilsunni gangandi. Þessar jáskoranir eru þannig að allir, nákvæmlega allir geta tekið þátt! Jáskorun í júlí fer fram í Facebook hópi og er algjörlega ókeypis og án allra skuldbindinga. Það hangir ekkert á spítunni. Ég bara hvet þig til að taka þátt og skella þér inn í hópinn! Þú þarft bara að segja já! Hér er slóðin: Facebook hópurinn - Jáskorun í júlí

Ég fæ oft spurninguna...“Ef ég ætla að gera vel við mig og fá mér einhverskonar gosdrykk, hvað er þá skárri kostur, með sykri eða gervisykri?“ Fyrst ætla ég að vera hrútleiðinleg og segja...hvorugt er gott! Ég á eiginleg ekki gott með að mæla með öðrum kostinum fram yfir hinn og hugsanlega myndi ég bara ekkert gera það heldur reyna að benda á aðra kosti. En hverjir eru þeir þá? Ef einstaklingur er til dæmis að forðast sykur og vill fá sér eitthvað gott, hvað gæti það þá eiginlega verið? Einmitt, það er nefnilega fátt um fína drætti. Langflestir sykurlausir drykkir eru fullir af ömurlegum týpum gervisykurs og til að toppa vitleysuna, þá kalla framleiðendur þessa drykki „heilsuvörur“. Ég varð til dæmi mjög svekkt þegar ákveðinn, frekar kúl drykkur kom fram á sjónarsviðið fyrir allnokkrum árum síðan. Drykkur með kollageni, mjög svalt dæmi. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að þessi drykkur inniheldur glataðan ódýran gervisykur. Vonandi eykst úrvalið hérlendis á gæða sykurlausum drykkjum í kjölfar aukinnar umræðu um skaðsemi gervisykurs. Vonandi! En fram að því, hvað getum við þá annað drukkið en pínu leiðigjarnt kranavatnið? Við getum alveg útbúið okkur holla, bragðgóða og dásamlega drykki sjálf. Það er hægt að nota vatn eða sódavatn sem grunn. Svo er hægt að bæta samanvið allskonar fíneríi. Til dæmis myntu, lime, sítrónu, appelsínu, gúrku, berjum og fleiru slíku. Svo kemur leynihráefnið.... Til að losna við sykur eða gervisykur er upplagt að nota stevíudropa sem fást bæði hreinir og með ýmsum bragðefnum. Það þarf rosalega lítið af þeim, jafnvel ekki nema 1-2 dropa í 1/2 l af drykk. Prófið ykkur áfram, sleppið ykkur lausum í tilraunir og ég lofa þetta mun bragðast vel og líkami og sál munu þakka fyrir sig.

Jólin eru tími til að njóta, en við nennum samt ekki að vera að drepast í maganum og meltingunni...er það? Margir höndla hátíðarmatinn og breytt mataræði ágætlega en ég myndi halda að meirihluti fullorðinna gæti verið í dálitlum vandræðum með meltinguna sína. Þess vegna tók ég saman lítinn lista yfir ýmislegt sem er hægt að gera og taka inn, svona fyrir ykkur sem eruð pínu í veseni með þetta. Þetta er auðvitað langt frá því að vera tæmandi listi, en getur virkað sem hugmyndabanki fyrir einhverja. 1. Sítróna: Volgt vatn með sítrónu getur gert kraftaverk, sé það drukkið á fastandi maga á morgnana eða fyrir stóra máltíð. Sítróna örvar meltinguna til góðra verka. 2. Meltingarhvetjandi jurtir: Ýmsar blöndur eru til, sem örva framleiðslu líkamans á meltingarensímum og galli. Takist með máltíðum. 3. Meltingarensím: Geta hjálpað til við niðurbrot fæðunnar og sérstaklega þegar meltingin er undir miklu álagi eins og á jólum og stórhátíðum. Takist fyrir eða með máltíðum. 4. Betain HCL: Sýra í töfluformi sem getur hjálpað til við niðurbrot fæðu, sérstaklega próteinríkrar fæðu, s.s. kjöts. Takist með máltíðum. 5. Meltingargerlar (probiotics): Hjálpa til við að byggja upp og viðhalda æskilegri þarmaflóru og halda vindstigunum í skefjun... Takist gjarnan kvölds og morgna á álagstímum. 6. Margar fleiri jurtir og hjálparefni eru til sem geta gagnast meltingarfærunum. S.s. regnálmur, fjallagrös, Tryphala og fl. 7. Magnesíum: Ef allt stíflast og fer í vesen, þá getur magnesíum (sítrat til dæmis) hjálpað til við að losa. 8. Mjólkurþistill: Flott jurt til að styðja við lifrina ef hún hugsanlega er undir meira álagi en venjulega. 9. Það er hægt að fá ýmislegt sem virkar vatnslosandi, ef blessaður bjúgurinn safnast fyrir. Persónulega finnst mér nettlu te virka best. 10. Sleppið svo samviskubitinu, þó þið borðið eitthvað sem er pínu djúsí og gott. Meltingin virkar miklu betur án samviskubits og það hefur aldrei neinn grætt á því að rífa sig niður í svaðið fyrir Nóa konfekt eða tertusneið. Gleðileg jól!