Inga Kristjáns
Er inntaka vítamína og bætiefna nauðsynleg?

Fáum við allt sem við þörfnumst úr fæðunni?
Þessar spurningar fæ ég mjög oft.
Mín skoðun er sú að ef einstaklingur borðar alla daga vel samsetta fæðu, gætir þess að kaupa alltaf lífrænt og helst heimaræktað á Íslandi, notar ekki unnin matvæli heldur eingöngu fersk, gætir þess að borða vel af lífrænu grænmeti og ávöxtum, borðar eingöngu heilkorn ekki hvítt, notar ekki hvítan sykur og drekkur ekki gosdrykki, fær nóg af góðri fitu úr matnum sérstaklega omega 3, drekkur ekki kaffi eða áfengi, notar engin lyf, þjáist ekki af meltingartruflunum, lifir í streitulausu umhverfi, er hamingjusamur, hvílist vel, hreyfir sig mátulega mikið, er mikið úti í fersku lofti og sól, þjáist ekki af neinum sjúkdómum, er ekki með ofnæmi eða óþol og hefur aldrei orðið fyrir mengun óæskilegra efna, þá er svarið......viðkomandi þarf mjög líklega ekki bætiefni eða vítamín!
Hversu marga þekkið þið sem lifa svona lífi eins og ég lýsti hér að ofan?
Hve margir eru í svona góðum málum?
Ég hef ekki hitt marga.......
Það er svo margt sem getur valdið því að fólk kýs að nýta sér bætiefni.
Aðal málið er að missa sig ekki út í einhverja þvælu, hlaupa á eftir töfraefnum ef auglýsingar lýsa þeim fjálglega, heldur skoða málin og nýta sér gagnrýna hugsun.
Þegar fólk leitar til mín í bætiefnaráðgjöf reyni ég alltaf að miða ráðgjöfina út frá einstaklingnum, hvernig er ástand hans, hvaða hugmyndir hefur hann og hvað þarf að vinna með. Það er eins misjafnt og við erum mörg, því sem betur fer erum við öll ólík
Sumir þurfa mjög lítið af bætiefnum, en aðrir meira.
Það er engin formúla til fyrir því.

Sumarmánuðir eru rólegir hjá næringarþerapistanum og þá er annað hvort að láta sér leiðast eða finna uppá einhverju nýju. Þess vegna datt mér í hug að gera svolítið skemmtilegt og vonandi láta gott af mér leiða í leiðinni. Ég elska svona ”winwin” dæmi, þegar bæði ég og aðrir hafa gaman og gott af því sem ég geri. Jáskorun í júli (mér finnst jáskorun mun fallegra orð en áskorun...) er eitthvað sem fæddist í kollinum á mér klukkan fimm að morgni, svona eins og gengur og hugmyndin lét mig ekki í friði. Þannig ég bara ákvað að kíla á verkefnið. Þetta snýst um að ég kem fram með fjórar jáskoranir, eina á viku í allan júlí. Mig langar svo að sýna fram á að sumarfrí og ferðalög þurfa ekki að setja heilsu og líðan á hliðina, heldur eru ótrúlega einföld ráð sem virka og hjálpa til við að halda gleðinni og heilsunni gangandi. Þessar jáskoranir eru þannig að allir, nákvæmlega allir geta tekið þátt! Jáskorun í júlí fer fram í Facebook hópi og er algjörlega ókeypis og án allra skuldbindinga. Það hangir ekkert á spítunni. Ég bara hvet þig til að taka þátt og skella þér inn í hópinn! Þú þarft bara að segja já! Hér er slóðin: Facebook hópurinn - Jáskorun í júlí

Ég fæ oft spurninguna...“Ef ég ætla að gera vel við mig og fá mér einhverskonar gosdrykk, hvað er þá skárri kostur, með sykri eða gervisykri?“ Fyrst ætla ég að vera hrútleiðinleg og segja...hvorugt er gott! Ég á eiginleg ekki gott með að mæla með öðrum kostinum fram yfir hinn og hugsanlega myndi ég bara ekkert gera það heldur reyna að benda á aðra kosti. En hverjir eru þeir þá? Ef einstaklingur er til dæmis að forðast sykur og vill fá sér eitthvað gott, hvað gæti það þá eiginlega verið? Einmitt, það er nefnilega fátt um fína drætti. Langflestir sykurlausir drykkir eru fullir af ömurlegum týpum gervisykurs og til að toppa vitleysuna, þá kalla framleiðendur þessa drykki „heilsuvörur“. Ég varð til dæmi mjög svekkt þegar ákveðinn, frekar kúl drykkur kom fram á sjónarsviðið fyrir allnokkrum árum síðan. Drykkur með kollageni, mjög svalt dæmi. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að þessi drykkur inniheldur glataðan ódýran gervisykur. Vonandi eykst úrvalið hérlendis á gæða sykurlausum drykkjum í kjölfar aukinnar umræðu um skaðsemi gervisykurs. Vonandi! En fram að því, hvað getum við þá annað drukkið en pínu leiðigjarnt kranavatnið? Við getum alveg útbúið okkur holla, bragðgóða og dásamlega drykki sjálf. Það er hægt að nota vatn eða sódavatn sem grunn. Svo er hægt að bæta samanvið allskonar fíneríi. Til dæmis myntu, lime, sítrónu, appelsínu, gúrku, berjum og fleiru slíku. Svo kemur leynihráefnið.... Til að losna við sykur eða gervisykur er upplagt að nota stevíudropa sem fást bæði hreinir og með ýmsum bragðefnum. Það þarf rosalega lítið af þeim, jafnvel ekki nema 1-2 dropa í 1/2 l af drykk. Prófið ykkur áfram, sleppið ykkur lausum í tilraunir og ég lofa þetta mun bragðast vel og líkami og sál munu þakka fyrir sig.

Jólin eru tími til að njóta, en við nennum samt ekki að vera að drepast í maganum og meltingunni...er það? Margir höndla hátíðarmatinn og breytt mataræði ágætlega en ég myndi halda að meirihluti fullorðinna gæti verið í dálitlum vandræðum með meltinguna sína. Þess vegna tók ég saman lítinn lista yfir ýmislegt sem er hægt að gera og taka inn, svona fyrir ykkur sem eruð pínu í veseni með þetta. Þetta er auðvitað langt frá því að vera tæmandi listi, en getur virkað sem hugmyndabanki fyrir einhverja. 1. Sítróna: Volgt vatn með sítrónu getur gert kraftaverk, sé það drukkið á fastandi maga á morgnana eða fyrir stóra máltíð. Sítróna örvar meltinguna til góðra verka. 2. Meltingarhvetjandi jurtir: Ýmsar blöndur eru til, sem örva framleiðslu líkamans á meltingarensímum og galli. Takist með máltíðum. 3. Meltingarensím: Geta hjálpað til við niðurbrot fæðunnar og sérstaklega þegar meltingin er undir miklu álagi eins og á jólum og stórhátíðum. Takist fyrir eða með máltíðum. 4. Betain HCL: Sýra í töfluformi sem getur hjálpað til við niðurbrot fæðu, sérstaklega próteinríkrar fæðu, s.s. kjöts. Takist með máltíðum. 5. Meltingargerlar (probiotics): Hjálpa til við að byggja upp og viðhalda æskilegri þarmaflóru og halda vindstigunum í skefjun... Takist gjarnan kvölds og morgna á álagstímum. 6. Margar fleiri jurtir og hjálparefni eru til sem geta gagnast meltingarfærunum. S.s. regnálmur, fjallagrös, Tryphala og fl. 7. Magnesíum: Ef allt stíflast og fer í vesen, þá getur magnesíum (sítrat til dæmis) hjálpað til við að losa. 8. Mjólkurþistill: Flott jurt til að styðja við lifrina ef hún hugsanlega er undir meira álagi en venjulega. 9. Það er hægt að fá ýmislegt sem virkar vatnslosandi, ef blessaður bjúgurinn safnast fyrir. Persónulega finnst mér nettlu te virka best. 10. Sleppið svo samviskubitinu, þó þið borðið eitthvað sem er pínu djúsí og gott. Meltingin virkar miklu betur án samviskubits og það hefur aldrei neinn grætt á því að rífa sig niður í svaðið fyrir Nóa konfekt eða tertusneið. Gleðileg jól!