Inga Kristjáns
Er gott að eldast?

Hafið þið eitthvað spáð í hvað er gott við það að eldast?
Spekulerað í hvort eitthvað sé jákvætt við það?
Við höfum pínu tilhneigingu til að einblína á neikvæðu þættina enda er okkur kennt það dálítið með allskonar auglýsingum og skilaboðum úr ýmsum áttum.
En við þurfum nú ekkert að hlusta á það frekar en við viljum. Það er sko alveg eðlilegt að fá hrukkur, slit hér og þar, færri eða fleiri kíló eða hvað það nú er sem við upplifum.
Persónulega finnst mér gott að eldast og get í einlægni sagt að ég myndi ekki vilja vera deginum yngri.
Lífið er búið að kenna og skóla mann til, þannig að reynsla og upplifun hefur skapað þá manneskju sem ég er í dag.
Ekki myndi ég vilja hafa misst af einni einustu mínútu.
Auðvitað hefur ýmislegt verið sárt og erfitt og sumt hund leiðinlegt, en ég hef þá trú að öll upplifun undirbúi mig undir það sem koma skal.
Þroski getur verið sár, en ef kosið er að nýta sér erfiðleika til góðs þá horfir það aðeins öðruvísi við.
Betra að sleppa því að vera fórnarlamb ekki satt!
Ég held að lykillinn að því að njóta þess að eldast sé að læra að þekkja sjálfa sig vel.
Þá er auðvelt að velja fyrir sig, sortera út það sem hentar ekki og bæta inn því sem passar.
Mér finnst ég hafa miklu minna þol fyrir rugli og bulli og nenni ekki að taka þátt í leiðinlegum samskiptum sem gefa mér ekkert.
Ég vel að umgangast fólk sem hefur góð áhrif á mig.
Það er svo gott að vera búin að sleppa tökum á hvað aðrir eru að gera og átta sig á að það komi manni bara alls ekki við.
Það er sko frelsi, maður minn !
Og á móti er mér drullu sama hvað öðrum finnst um hvað ég geri.....eða svona nokkurn veginn, held það náist kannski aldrei alveg – alla leið.
Dagsformið er líka misjafnt í þessu sem og öðru.
Þegar við eldumst þá áttum við okkur líka betur á því sem skiptir máli.
Ég held við lærum líka að njóta lífsins betur, staldra við og draga andann aðeins dýpra.
Njóta þess að fá að lifa og vera.
Hvert aldursskeið hefur sinn sjarma.
Ég veit að það getur verið skít erfitt að sjá það, ef kona er á bullandi breytingaskeiði, sveitt, verkjuð, svefnlaus og andlega búin á því.
Ég þekki það...úfff...
Við þurfum þá að reyna að gera allt sem við getum til að láta okkur líða betur, nota öll bjargráðin sem bæði við sjálfar og aðrar konur kunna og halda áfram að lifa og njóta.
Leitin getur leitt okkur á slóðir sem við áttum ekki von á að fara, en þá er að taka því opnum örmum. Dæmum hvorki aðrar né okkur sjálfar fyrir hvaða leið við veljum.
Ég held að það sé mikilvægt að við horfum jákvætt á lífið, sama á hvaða aldri við erum eða hvar við erum staddar í lífinu. Það er oft pínu vesen og ogguponsu leiðinlegt, en við gerum okkar besta eins og ávallt.
Ef við spáum í það þá höfum við hver og ein áorkað ótrúlega miklu, við höfum verið ógisssslega duglegar, græjað og gert og komist áfram í lífinu.
Ég held við flestar eigum sigra sem við höfum ekki einu sinni komið auga á.
Við höldum áfram þannig.
Og afsakið... gleymdi næstum....svarið við spurningunni er já! Það er gott að eldast!

Sumarmánuðir eru rólegir hjá næringarþerapistanum og þá er annað hvort að láta sér leiðast eða finna uppá einhverju nýju. Þess vegna datt mér í hug að gera svolítið skemmtilegt og vonandi láta gott af mér leiða í leiðinni. Ég elska svona ”winwin” dæmi, þegar bæði ég og aðrir hafa gaman og gott af því sem ég geri. Jáskorun í júli (mér finnst jáskorun mun fallegra orð en áskorun...) er eitthvað sem fæddist í kollinum á mér klukkan fimm að morgni, svona eins og gengur og hugmyndin lét mig ekki í friði. Þannig ég bara ákvað að kíla á verkefnið. Þetta snýst um að ég kem fram með fjórar jáskoranir, eina á viku í allan júlí. Mig langar svo að sýna fram á að sumarfrí og ferðalög þurfa ekki að setja heilsu og líðan á hliðina, heldur eru ótrúlega einföld ráð sem virka og hjálpa til við að halda gleðinni og heilsunni gangandi. Þessar jáskoranir eru þannig að allir, nákvæmlega allir geta tekið þátt! Jáskorun í júlí fer fram í Facebook hópi og er algjörlega ókeypis og án allra skuldbindinga. Það hangir ekkert á spítunni. Ég bara hvet þig til að taka þátt og skella þér inn í hópinn! Þú þarft bara að segja já! Hér er slóðin: Facebook hópurinn - Jáskorun í júlí

Ég fæ oft spurninguna...“Ef ég ætla að gera vel við mig og fá mér einhverskonar gosdrykk, hvað er þá skárri kostur, með sykri eða gervisykri?“ Fyrst ætla ég að vera hrútleiðinleg og segja...hvorugt er gott! Ég á eiginleg ekki gott með að mæla með öðrum kostinum fram yfir hinn og hugsanlega myndi ég bara ekkert gera það heldur reyna að benda á aðra kosti. En hverjir eru þeir þá? Ef einstaklingur er til dæmis að forðast sykur og vill fá sér eitthvað gott, hvað gæti það þá eiginlega verið? Einmitt, það er nefnilega fátt um fína drætti. Langflestir sykurlausir drykkir eru fullir af ömurlegum týpum gervisykurs og til að toppa vitleysuna, þá kalla framleiðendur þessa drykki „heilsuvörur“. Ég varð til dæmi mjög svekkt þegar ákveðinn, frekar kúl drykkur kom fram á sjónarsviðið fyrir allnokkrum árum síðan. Drykkur með kollageni, mjög svalt dæmi. En ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá að þessi drykkur inniheldur glataðan ódýran gervisykur. Vonandi eykst úrvalið hérlendis á gæða sykurlausum drykkjum í kjölfar aukinnar umræðu um skaðsemi gervisykurs. Vonandi! En fram að því, hvað getum við þá annað drukkið en pínu leiðigjarnt kranavatnið? Við getum alveg útbúið okkur holla, bragðgóða og dásamlega drykki sjálf. Það er hægt að nota vatn eða sódavatn sem grunn. Svo er hægt að bæta samanvið allskonar fíneríi. Til dæmis myntu, lime, sítrónu, appelsínu, gúrku, berjum og fleiru slíku. Svo kemur leynihráefnið.... Til að losna við sykur eða gervisykur er upplagt að nota stevíudropa sem fást bæði hreinir og með ýmsum bragðefnum. Það þarf rosalega lítið af þeim, jafnvel ekki nema 1-2 dropa í 1/2 l af drykk. Prófið ykkur áfram, sleppið ykkur lausum í tilraunir og ég lofa þetta mun bragðast vel og líkami og sál munu þakka fyrir sig.

Jólin eru tími til að njóta, en við nennum samt ekki að vera að drepast í maganum og meltingunni...er það? Margir höndla hátíðarmatinn og breytt mataræði ágætlega en ég myndi halda að meirihluti fullorðinna gæti verið í dálitlum vandræðum með meltinguna sína. Þess vegna tók ég saman lítinn lista yfir ýmislegt sem er hægt að gera og taka inn, svona fyrir ykkur sem eruð pínu í veseni með þetta. Þetta er auðvitað langt frá því að vera tæmandi listi, en getur virkað sem hugmyndabanki fyrir einhverja. 1. Sítróna: Volgt vatn með sítrónu getur gert kraftaverk, sé það drukkið á fastandi maga á morgnana eða fyrir stóra máltíð. Sítróna örvar meltinguna til góðra verka. 2. Meltingarhvetjandi jurtir: Ýmsar blöndur eru til, sem örva framleiðslu líkamans á meltingarensímum og galli. Takist með máltíðum. 3. Meltingarensím: Geta hjálpað til við niðurbrot fæðunnar og sérstaklega þegar meltingin er undir miklu álagi eins og á jólum og stórhátíðum. Takist fyrir eða með máltíðum. 4. Betain HCL: Sýra í töfluformi sem getur hjálpað til við niðurbrot fæðu, sérstaklega próteinríkrar fæðu, s.s. kjöts. Takist með máltíðum. 5. Meltingargerlar (probiotics): Hjálpa til við að byggja upp og viðhalda æskilegri þarmaflóru og halda vindstigunum í skefjun... Takist gjarnan kvölds og morgna á álagstímum. 6. Margar fleiri jurtir og hjálparefni eru til sem geta gagnast meltingarfærunum. S.s. regnálmur, fjallagrös, Tryphala og fl. 7. Magnesíum: Ef allt stíflast og fer í vesen, þá getur magnesíum (sítrat til dæmis) hjálpað til við að losa. 8. Mjólkurþistill: Flott jurt til að styðja við lifrina ef hún hugsanlega er undir meira álagi en venjulega. 9. Það er hægt að fá ýmislegt sem virkar vatnslosandi, ef blessaður bjúgurinn safnast fyrir. Persónulega finnst mér nettlu te virka best. 10. Sleppið svo samviskubitinu, þó þið borðið eitthvað sem er pínu djúsí og gott. Meltingin virkar miklu betur án samviskubits og það hefur aldrei neinn grætt á því að rífa sig niður í svaðið fyrir Nóa konfekt eða tertusneið. Gleðileg jól!